Verkefnið er rannsókn Ragnheiðar Ingunnar á því formi tónlistarflutnings þegar einsöngvari syngur og stjórnar hljómsveit um leið. Rýnt var í hvaða áhrif það hefði á flutninginn að söngvarinn og stjórnandinn sé sama manneskjan, hvort það dragi úr hæfni söngvarans til að túlka texta og sýna leikræna tilburði eða hvort það efli flutninginn að sá/sú sem syngur einsöng leiði einnig hljómsveitina.
Rannsóknin var unnin út frá persónulegu sjónarhorni söngkonunnar og stjórnandans, auk þess sem viðhorf hljómsveitarmeðlima voru mikilvægur þáttur í rannsókninni. Fylgst var með vinnu Barböru Hannigan, heimsfrægrar sópransöngkonu og hljómsveitarstjóra, við undirbúning tónleika hennar á Listahátíð með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Unnið var náið með þremur íslenskum tónskáldum sem sömdu verk sérstaklega fyrir verkefnið sem flutt voru af syngjandi stjórnandanum og tólf manna kammersveit á tónleikum í Eldborg á Óperudögum 5. nóvember 2022. Tónskáldin eru Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson og María Huld Markan.