Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

Æviágrip

Menntun

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2021 með tvöfalda bakkalársgráðu í fiðluleik og söng með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Þar stundaði hún fiðlunám hjá Guðnýju Guðmundsdóttur, söngnám hjá Hönnu Dóru Sturludóttur, Þóru Einarsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Dísellu Lárusdóttur, Kristni Sigmundssyni og Stuart Skelton og nám í hljómsveitarstjórn hjá Gunnsteini Ólafssyni. Á yngri árum lærði hún fiðluleik hjá Helgu Steinunni Torfadóttur og Ara Þór Vilhjálmssyni og söngnámið hóf hún hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur.

Vorið 2023 lauk hún meistaranámi í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi, þar sem helstu kennarar voru Åsa Bäverstam og Magnus Svensson, og sumarið 2024 útskrifaðist hún úr Malko hljómsveitarstjóraakademíunni í Kaupmannahöfn.

Hún hefur einnig lokið meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. 

Haustið 2024 hóf Ragnheiður nám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Osló undir handleiðslu Ole Kristian Ruud, þaðan sem hún útskrifast vorið 2026. Veturinn 2024-2025 stundar hún einnig nám við Royal Academy of Music í London í "Glover-Edwards Conducting Programme" hjá Sian Edwards, Alice Farnham og Jane Glover.

 

Söngur og hljómsveitarstjórn samtímis

Ragnheiður Ingunn stóð fyrir tónleikunum „Hvað syngur í stjórnandanum?“ á lokahátíð Óperudaga í Eldborg í Hörpu 5. nóvember 2022 og kom þá fram ásamt tólf manna kammersveit, að mestu skipaðri meðlimum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á tónleikunum voru frumflutt þrjú ný íslensk verk, samin sérstaklega fyrir tilefnið, auk aríu Zerbinettu úr óperunni Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss, en í öllum verkunum söng Ragnheiður og stjórnaði samtímis. Í kjölfarið var hún valin „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.

Eftir að hafa farið með sigur af hólmi í einleikarakeppni LHÍ og SÍ kom hún fram sem einsöngvari og hljómsveitarstjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar vorið 2023.

 

Söngur

Ragnheiður vann söngkeppnina Vox Domini 2022 og var valin „Rödd ársins“. Hún söng einsöngshlutverkið í 4. sinfóníu Mahlers með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins 2023 og á Óperudögum 2023 söng hún verkið Kafka Fragments eftir Kurtág, ásamt fiðluleikaranum Rannveigu Mörtu Sarc. Þá hefur hún komið fram sem einsöngvari með kórum í Svíþjóð, m.a. í Mattheusarpassíu Bachs og sungið á Sönghátíð í Hafnarborg og Listahátíð í Reykjavík.

 

Hljómsveitarstjórn

Vorið 2022 var hún ein sex ungra hljómsveitarstjóra, sem valdir voru úr hópi 110 umsækjenda víðs vegar að úr heiminum, til inngöngu í hina nýstofnuðu alþjóðlegu Malko hljómsveitarstjóraakademíu í DR tónlistarhúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hún naut handleiðslu m.a. Henrik Vagn Christensen, Ole Faurschou, Fabio Luisi, Dmitry Matvienko, Martina Batič, Geoffrey Paterson og Johannes Schlaefli. Á útskriftartónleikum sínum sumarið 2024 stjórnaði hún 4. sinfóníu Mahlers með Dönsku þjóðarhljómsveitinni.

Undanfarin fjögur ár hefur hún meðfram öðru námi notið leiðsagnar Evu Ollikainen í hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stjórnað hljómsveitinni í masterklössum og á hádegistónleikum.

Þá hefur Ragnheiður Ingunn stjórnað Barnastund Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sjónvarpsupptökum hljómsveitarinnar og strengjasveitarupptökum á nýjustu plötu Bjarkar, Fossora. Hún stjórnaði Sinfóníuhljómsveit unga fólksins haustið 2023 og Sinfóníuhljómsveit og strengjasveit Menntaskóla í tónlist vorið 2024.
 

Fiðluleikur

Sem fiðluleikari hefur hún leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit MÍT, gegnt stöðu konsertmeistara helstu ungsveita landsins og leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hefur hún hljóðritað tónlist af ýmsu tagi með fjölbreyttum hópi listamanna og komið fram með þeim á tónleikum og tónlistarhátíðum hér heima og í London, Þýskalandi og Hollandi.

 

Styrkir og verðlaun

Music awards

Ragnheiður stillti sér upp með Guðna forseta þegar hún var valin "Bjartasta vonin" á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.

2024

  • Styrkur úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns

  • Styrkur úr Tónlistarsjóði Rótarý

  • Námsstyrkur Landsbankans - listnám

  • Styrkur úr Sviðslistasjóði óperuverkefna, Borgarsjóði, Samfélagssjóði Landsbankans, Ýli og Tónlistarsjóði fyrir tónleikunum Pierrot lunaire

2023 

  • Styrkur úr Minningarsjóði um Jean-Pierre Jacquillat 

  • Sigurvegari í einleikarakeppni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungir einleikarar 

  • „Bjartasta vonin í íslensku tónlistarlífi“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023
  • Listamannalaun og styrkir úr Tónlistarsjóði, Ýli og Lista- og menningarsjóði Kópavogs fyrir tónleikunum I never saw another butterfly (júlí ‘23) og Kafka Fragments (okt. ‘23)

2022

  • „Rödd ársins“ í klassísku söngkeppninni Vox Domini í Reykjavík

  • Berwald-verðlaunin í Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi

  • Styrkir úr Tónlistarsjóði og Tónskáldasjóði RÚV og STEFs fyrir tónleikunum Hvað syngur í stjórnandanum? sem fóru fram í Eldborg á Óperudögum 5. nóv. 2022

  • Styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (Rannís) til verkefnisins: Hvað syngur í stjórnandanum? (rannsókn á því formi tónlistarflutnings þegar hljómsveitarstjóri er jafnframt einsöngvari með hljómsveitinni)

  • Styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (Rannís) til rannsóknar á inngildingu innflytjenda í íslensku menningarlífi

2021

  • Styrkur úr styrktarsjóði Halldórs Hansen við útskrift úr LHÍ

2020

  • Styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (Rannís) til rannsóknar á áhrifum heimsfaraldurs á tónlistarlíf hérlendis

2019

  • Styrkur úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands og Menntaverðlaun Háskóla Íslands 

  • Sigurvegari í Söngkeppni Skólafélags MR  

2018

  • Sigurvegari í Einleikarakeppni Menntaskóla í tónlist

  • Styrkur úr Minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar

  • Sigurvegari í Söngkeppni Skólafélags MR  

2017

  • Námsstyrkur Landsbankans - framhaldsskólanám